Félagsstarf

Aðalfundur SKB er haldinn í febrúar ár hvert. Þá er kosinn formaður félagsins til eins árs og helmingur stjórnarmanna til tveggja ára. Reikningar félagsins eru kynntir og samþykktir og rætt um starfsemina vítt og breitt.

Árshátíð er haldin að vetrarlagi, ýmist fyrir eða eftir áramót. Þá gera félagsmenn sér glaðan dag yfir skemmtiatriðum, mat og drykk.

Félagsmenn í SKB koma saman á sumarhátíð og njóta samveru. Félag íslenskra einkaflugmanna hefur glatt fjölskyldurnar í félaginu með útsýnisflugi og boðið hefur verið upp á varðeld og skemmtun fyrir börnin.

Jólastund fyrir börn og fullorðna er haldin 20. desember hvert ár, á afmælisdegi Sigurbjargar Sighvatsdóttur, sem ánafnaði félaginu allar eigur sínar árið 1994. Sú gjöf styrkti mjög undirstöður starfsemi félagsins á fyrstu árum þess og lagði grunn að áframhaldandi starfi. Síðustu ár hafa konur í Lionsklúbbnum Ýri í Kópavogi boðið félaginu aðstöðu og glæsilegar veitingar.

Fyrir utan þessa föstu liði í félagsstarfi SKB starfa Angi, mömmuhópur, pabbahópur og unglingahópur á vegum þess.