Eftirfylgd út í lífið

Árlega greinast 12-14 börn með krabbamein á Íslandi. Flest þeirra lifa af, sem betur fer, en þurfa að gangast undir erfiðar meðferðir: lyfjagjafir, geisla og skurðaðgerðir. Því miður fylgja þessum miklu inngripum stundum síðbúnar afleiðingar. Eitthvað skaddast í líkamanum um leið og unninn er bugur á krabbameininu, félagsleg einangrun tekur sinn toll með sálrænum erfiðleikum og þreytan er algengur fylgifiskur. Ýmislegt sem áður var leikur einn verður meiriháttar hindrun. Það getur verið meira en að segja það að lifa af krabbameinsmeðferð.
Félagið hefur þegar gert ýmislegt í því að upplýsa kennara og aðra starfsmenn skóla um hvaða þarfir krabbameinsveik börn hafa meðan á meðferð stendur og eftir að henni lýkur og gefið út ágæt rit í þeim tilgangi. Enn er þó hægt að gera betur og felst verkefnið Eftirfylgd út í lífið í því að iðjuþjálfi tekur út aðstæður skjólstæðinga félagsins í skólunum, bæði sem snúa að samskiptum annars vegar og aðstæðum og aðbúnaði hins vegar, og gera þær aðlaganir og breytingar sem hægt er til að nemandanum líði sem best. Þetta getur kallað á auknar upplýsingar til skólastarfsfólks og/eða breytingar á vinnu- og hvíldaraðstöðu. Markmiðið er að fylgja hverju barni náið eftir og koma til móts við þarfir þess á hverjum stað og hverjum tíma.

Starf iðjuþjálfa við SKB byggist á mati á þátttöku og færni nemenda sem glíma við skólafærnivanda, auk mats á skynúrvinnslu. Einnig að efla félagsfærni barnanna. Að auki sinnir iðjuþjálfi athugunum á vinnuaðstöðu barna, aðlögun á hjálpartækjum, metur þörf á hjálpartækjum sem og situr í teymum vegna barna. Eftirfylgd, fræðsla og ráðgjöf er stór hluti af starfi iðjuþjálfa og mjög mikilvægur þáttur.
Kristjönu Ólafsdóttir iðjuþjálfi hefur séð um verkefnið og hefur það nýst þeim sem fengið hafa þjónustu hennar afar vel. Félagsmenn eru hvattir til að sækja um hér.