Þjónusta

Einn tilgangur Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna er að veita félagsmönnum fjárstuðning og/eða að styrkja málefni í þeirra þágu. Um þessar styrkveitingar gilda ákveðnar reglur. Allar umsóknir aðrar en umsóknir til Styrktarsjóðs eru teknar fyrir af framkvæmdastjórn SKB með hliðsjón af þessum reglum og með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Framkvæmdastjórn áskilur sér rétt til að samþykkja umsóknina að hluta til eða öllu leyti, hafna henni alfarið eða vísa henni til Styrktarsjóðs félagsins ef ástæða þykir til. Styrkumsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum. Styrkirnir eru eftirfarandi:

GREININGARSTYRKUR
Þegar barn greinist með krabbamein og fjölskylda barnsins gerist félagsmenn í SKB greiðir félagið fjölskyldunni fasta fjárupphæð sem kölluð hefur verið greiningarstyrkur. Honum er ætlað að styðja við bakið á fjölskyldunni fyrstu dagana eftir að barnið greinist og mæta óvæntum kostnaði sem hlotist getur af veikindunum. Styrkurinn er greiddur inn á reikning foreldris eins fljótt og hægt er eftir að fulltrúi félagsins hefur átt fund með foreldrunum og fjölskyldan hefur verið skráð í SKB.

ÞJÓNUSTUSTYRKIR
Undir þjónustustyrki falla þeir styrkir sem SKB veitir félagsmönnum til kaupa á þjónustu fagaðila vegna veikinda barns sem ekki er greidd af hinu opinbera eða öðrum aðilum. Börn sem eru með krabbamein geta sótt um styrki frá SKB til að sækja þjónustu sem mögulega getur bætt lífsgæði viðkomandi, bæði á meðan meðferð stendur og eftir að henni lýkur. Foreldrar og systkini (yngri en 18 ára) geta sótt um styrk frá SKB vegna eins þjónustuliðar meðan á meðferð barnsins stendur en eftir að meðferð lýkur geta félagsmenn (foreldrar og systkini) sótt um styrki til að sækja sálfræðiþjónustu. Stjórn SKB, með aðstoð Fagráðs SKB ef þörf er á, metur hversu lengi fjölskyldur/einstaklingar þurfa á þjónustunni að halda. Meðal þeirrar þjónustu sem SKB greiðir fyrir er:

Sjúkraþjálfun
Iðjuþjálfun
Sálfræðiþjónusta
Heilsurækt
Önnur heilbrigðisþjónusta sem félagsmenn þurfa að sækja og rekja má til þess að barn hafi greinst með krabbamein.

Umsóknareyðublað

ALMENNUR STYRKUR
Félagsmenn í SKB hafa möguleika á að sækja um styrki af öðrum ástæðum en að ofan greinir telji þeir þörf á því. Vinsamlega gefið þá eins ítarlegar skýringar á umsóknareyðublaðinu og unnt er.

Umsóknareyðublað

STYRKTARSJÓÐUR
Foreldrar krabbameinssjúkra barna þekkja margir af eigin raun hvaða áhrif langvinn veikindi hafa á fjárhag fjölskyldunnar, bæði vegna aukinna fjárútláta og tekjumissis annars eða beggja foreldra til lengri eða skemmri tíma. Andlegt álag og líkamleg vanlíðan eru óhjákvæmilegir fylgifiskar veikindanna og ekki eru fjárhagsáhyggjur foreldra til að minnka álagið.

Rétt til að sækja um stuðning úr Styrktarsjóði SKB eiga fjölskyldur krabbameinssjúkra barna, samkvæmt skilgreiningu í reglum sjóðsins.

Úthlutunarnefnd Styrktarsjóðsins metur hverja umsókn fyrir sig. Umsóknum í sjóðinn þurfa að fylgja nauðsynlegar upplýsingar og aðstoða starfsmenn SKB góðfúslega þá sem þess óska.

Umsóknareyðublað fyrir Styrktarsjóð