Úr sögu SKB

Aðdragandinn að stofnun Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna hefst í raun 9. febrúar árið 1983 þótt félagið hafi ekki verið stofnað formlega fyrr en 2. september árið 1991.

9. febrúar 1983 hittust foreldrar 7 krabbameinssjúkra barna á heimili Helgu Karlsdóttur, hjúkrunarfræðings á Barnaspítala Hringsins, ásamt Guðmundi Jónmundssyni lækni og Hertu W. Jónsdóttur hjúkrunarframkvæmdastjóra og stofnuðu óformlega Félag foreldra barna með illkynja sjúkdóma. Félagið tók síðar upp nafnið Samhjálp foreldra þegar það gekk í Krabbameinsfélag Íslands árið 1986. Tilgangur félagsins var að gefa foreldrum kost á að kynnast svo að þeir gætu leitað til annarra foreldra og fengið stuðning og upplýsingar um sjúkdóm barna sinna.

Félagsskapurinn var ekki formlegur að því leyti að hann hafði engin lög, það voru ekki skráðar fundargerðir og stjórn var ekki kosin með formlegum hætti en Skúli Jónsson var alla tíð formaður félagsins og meðstjórnendur voru Sigríður Halldórsdóttir og Jóhanna Valgeirsdóttir en í raun sátu líka stjórnarfundi makar þeirra, Svanhvít Magnúsdóttir, Þorbjörn Gíslason og Benedikt Axelsson.

Markmið Samhjálpar foreldra var að fræðast um krabbamein í börnum og leita upplýsinga um þá þætti sem sneru að veikindum barnanna, svo sem meðferð, fylgikvilla, tryggingamál, aðbúnað á sjúkrahúsum og fleira.

2. september 1991 var Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna stofnað sem sjálfstætt félag, óháð Krabbameinsfélagi Íslands og hefur starfað þannig allar götur síðan. SKB er eitt aðildarfélaga Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, og á aðild að Almannaheillum, samtökum þriðja geirans. Auk þess er SKB aðili að alþjóðlegum samtökum félaga foreldra barna með krabbamein, CCI (Childhood Cancer International).